Search
 Enter Title
Minimize

Yfirlýsingin var undirbúin af nefnd fulltrúa Evrópulanda (”Congress Ambassadors Committee from European countries”) og undirrituð á ráðstefnu í Ljubljana 7. nóv 2008.

EVRÓPSKA YFIRLÝSINGIN UM MAT, TÆKNI OG NÆRINGU

Formáli
Við þátttakendur á fyrstu evrópsku matvælaráðstefnunni (”First European Food Congress” Ljubljana, Slóveníu 2008) lýsum yfir stuðningi við FAO/WHO yfirlýsinguna um næringu (Róm 1992) og WHO yfirlýsinguna um öryggi matvæla (Peking 2007). Með þessari yfirlýsingu viljum við leggja áherslu á þau málefni sem tengjast mat, tækni og næringu sem skipta mestu máli fyrir Evrópu.

MARKHÓPUR
Evrópska yfirlýsingin um mat, tækni og næringu er beint að evrópskum neytendum, stefnumótandi aðilum, vísindamönnum, evrópskum matvælaiðnaði og öðrum hagsmunaaðilum.

MATUR OG NÆRING
Matur er manninum nauðsynlegur til vaxtar, þroska og allrar líkamsstarfsemi. Góð næring felur í sér fjölbreytt mataræði og hæfilegt magn næringarefna til þess að fullnægja orku- og næringarefnaþörf líkamans. Matur verður að vera öruggur til neyslu, næringarríkur og aflað á sjálfbæran hátt sem virðir menningarlegan uppruna neytandans.

EVRÓPSK MATVÆLAFRÆÐI, TÆKNI OG NÆRING
Evrópskir sérfræðingar í matvælafræði, tækni og næringu stuðla stöðugt að mikilvægri framþróun í matvælaframleiðslu, varðveislu, vinnslu, geymslu og dreifingu matvæla sem og í næringarfræði og velferðarmálum með því að nýta grunnvísindi í þessum hagnýtu vísindagreinum. Þeir hafa einnig skipulagt sig í mörg vísinda- og fagfélög og samtök. Slík samtök eiga sér oft samastað í einu landi en þau eru einnig skipulögð þannig að þau ná til fleiri landa eins og á svæðum þar sem fæðuval íbúa er svipað. Bæði er um að ræða þverfagleg félög eða félög skipulögð í kringum afmarkaðar vísinda- og faggreinar eins og líffræði, efnafræði, lífefnafræði, líftækni, örverufræði, verkfræði, næringarfræði, læknisfræði og aðrar tengdar vísindagreinar.
Markmið þessarar yfirlýsingar er að allar þessar greinar sameinist um að þjóna evrópskum almenningi sem og samfélagi vísindamanna, stjórnmálamanna, stjórnvalda og iðnaðar á sem bestan hátt. Þessi samvinna ólíkra greina mun gera Evrópu kleift að verða samkeppnisfær á alþjóðlegum markaði, að auka aðgengi að heilsusamlegum matvælum og að verða leiðandi í heiminum hvað varðar staðla vísindalegrar nákvæmni og heiðarleika.

SAMVINNA EVRÓPSKRAR MATVÆLAFRÆÐI, TÆKNI OG NÆRINGARFRÆÐI
Markmið yfirlýsingar þessarar er að vekja umræðu á meðal evrópskra matvælafræðinga, matvælatæknifræðinga og næringarfræðinga til að koma á fót ferli sem vonandi leiðir til þess að framtíðar samþættingu verður náð. Annað markmið er að verða að liði við að samræma staðla sem notaðir eru í evrópskum matvælaiðnaði við mat á gæðum og öryggi matvæla. Allt þetta getur stuðlað að eflingu áhrifa sem fagfólk í matvælafræði, tækni og næringarfræði ættu að hafa á tæknilega, visindalega, pólitíska, umhverfislega, félagslega og menningarlega hugsun í Evrópu. Að sjálfsögðu má framkvæmdin ekki skaða næringarfræðilega og svæðisbundna sérstöðu matvæla og mataræðis í Evrópu þar sem það er sú fjölbreytni sem mun leiða af sér framtíðar uppgötvanir og nýsköpun.

HELSTU MÁLEFNI
Yfirlýsingu þessari er sérstaklega ætlað að örva umræðu um eftirfarandi málefni:
- Matvæli eru afar mikilvægt stefnumörkunar og stjórnmálalegt málefni;
- Mengun matvæla með örverum, aðskota- eða eiturefnum sem og efnum í matvælum sem valdið geta fæðuofnæmi eru áfram eitt helsta áhyggjuefni hvað varðar lýðheilsu;
- Staðbundin framleiðsla matvæla hefur áhrif á svæðisbundna menningu, varðveitir líffræðilega fjölbreytni og stuðlar að svæðisbundnum félagslegum og hagfræðilegum stöðugleika;
- Langar samgöngukeðjur geta minnkað gæði matvæla og haft slæm áhrif á umhverfið;
- tvæli gegna lykilhlutverki í að koma á fót og viðhalda góðum matarvenjum sem hluta af heilbrigðu líferni yfir allt æviskeið manna;
- Aukin tíðni offitu og annarra fæðutengdra krónískra sjúkdóma teljast til helstu lýðheilsuvandamála og ástæðna fyrir útgjöldum heilbrigðiskerfisins;
- Menntunarstig og núverandi þekkingaryfirfærsla á sviðinu eru ekki nægjanleg til að neytendur geti tekið upplýstar ákvarðanir;
- Þjálfun og menntun hagsmunaaðila sem koma að fæðukeðjunni er gríðarmikil áskorun.

GRUNDVALLARATRIÐI SEM HALDA BER VIÐ OG HVETJA TIL
Næringarfræðilega nægilegt framboð af öruggum matvælum telst til grundvallar mannréttinda hvers neytanda:
- Allir eiga rétt á áreiðanlegum upplýsingum um matvæli, mataræði og áhrif þeirra á heilsufar;
- Matvælaframleiðsla, vinnsla, flutningur og dreifing þarf að taka mið af sjálfbærni, áhrifum á umhverfið, samfélagið og siðferðileg álitamál sem og matvælalögjöf, svo sem rekjanleika;
- Hvetja skal til tæknilegra framfara við þróun matvæla sem hæfa ákveðnum hópum með sérstakar næringarþarfir;
- Framfylgja þarf heiðarlegum og viðeigandi merkingum matvæla í samstarfi matvælaiðnaðar og opinberra aðila;
- Gerð er krafa um að fjölmiðlasamskipti séu skiljanleg og byggð á gagnreyndri vísindalegri þekkingu;
- Hvetja skal til fullnægjandi næringar og heilbrigðs lífsstíls sem gegna lykilhlutverki í forvörnum og minnkun ýmissa sjúkóma;
- Allir eiga rétt á menntun um matvæli og næringarfræði snemma á ævinni til þess að geta tekið ábyrgð á eigin heilsu með viðeigandi fæðuvali;
- Stjórnendur í matvælaiðnaði þurfa að viðurkenna þörf fyrir sérfræðiþekkingu á sviði næringar og matvælaöryggis og tryggja nauðsynlegar aðstæður sem öryggi matvæla krefst.

LYKILAÐGERÐIR
Yfirlýsing þessi styður eftirfarandi lykilaðgerðir:
- Framleiðendur, smásalar og þeir sem meðhöndla matvæli ættu til viðbótar við núgildandi reglugerðir að huga að siðfræðilegum álitamálum sem snúa að öllum ferlum fæðukeðjunnar;
- Sérfræðingar skulu vinna í samræmi við faglegar og siðferðilegar viðmiðanir;
- Ríkisstjórnir og önnur ábyrg yfirvöld og stofnanir ættu að samræma reglugerðir og matvælastefnu til að auðvelda aðlögun að alþjóðabreytingum framtíðarinnar;
- Ríkisstjórnir og önnur ábyrg yfirvöld og stofnanir ættu að þróa landsbundna matvælastefnu sem tekur mið af félagslegum og menningarlegum breytileika, reynslu sérþörfum;
- Allir fagaðilar í matvælafræði, næringarfræði og tækni ættu að stuðla að því að komið verði á fót menntakerfi sem leiði til upplýstari neytenda gegnum árangursríka yfirfærslu þekkingar;
- Hver og einn ætti að geta tekið ábyrgð á eigin heilsu og viðeigandi fæðuvali;
- Undirritaðir aðilar munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að þeim grunnatriðum sem sett eru fram í yfirlýsingu þessari verði komið í verk.

Undirritað af
Prófessor Peter Raspor, forseti Fyrsta evrópska matvælaþingsins fyrir hönd nefndar fulltrúa frá 41 Evrópulandi